Texti eftir JBK Ransu

“Við sjáum ekki bara liti. Þeir hafa líka sálræn áhrif á okkur.  Þeir geta lyft okkur upp eða dregið okkur andlega niður, vakið upp minningar um atburði og jafnvel staði. Þess vegna eru litir eitt helsta tungumál myndlistarinnar um leið og þeir eru eitt helsta rannsóknarefni hennar.”    Úr texta J.B. Ransu um sýninguna.

Ferðalag um sýningu. Dalir og hólar 2014  / LITUR

Texti e. Jón B. K.Ransu

Litir eru mælanlegrar birtingarmyndir tíðnidreifingar ljóss sem sjónsvið manneskjunnar getur greint.  Rafsegulbylgjur berast auga manneskjunnar og það nemur liti með sama hætti og heyrn manna nemur ákveðið svið hljóðbylgja.  Þannig kennir byltingarkennd uppgötvun  Isaacs Newtons okkur hvernig litur verður til. Eðlisfræði litanna segir okkur hins vegar ekkert um hughrif og tilfinningaleg áhrif lita. Við sjáum ekki bara liti. Þeir hafa líka sálræn áhrif á okkur.  Þeir geta lyft okkur upp eða dregið okkur andlega niður, vakið upp minningar um atburði og jafnvel staði. Þess vegna eru litir eitt helsta tungumál myndlistarinnar um leið og þeir eru eitt helsta rannsóknarefni hennar.
Til er bók sem Birgir Andrésson myndlistarmaður gerði og gaf út árið 1991 sem heitir Grænn. Síður hennar geyma liti, einlita græntónaða fleti. Lítill texti er undir hverjum litarfleti þar sem listamaðurinn gefur upp litablöndun samkvæmt CMYK litarkerfi líkt og um uppskrift sér að ræða. Samræmi litanna í bókinni, utan þess að vera innan græntónaskala, er merkt á hverri síðu sem “íslenskir litir”. Aðspurður um niðurstöðu sína á því hvað einkenni „íslenska liti“ svaraði Birgir jafnan brosandi: „Þetta er leikur einn. Það eru auðvitað ekki til íslenskir litir. Litir eru alþjóðlegir“. Íslenskir litir Birgis byggðu engu að síður á tilfinningu hans á því sem hann skynjaði í sínu nánasta umhverfi. Þeir voru á vissan hátt eins og lýsingar á umhverfi, dregnar saman í einföldustu mynd sem hugsast gat. Skynjun á litum þess. Staðir fela nefnilega í sér sinn litaskala og ef við svo rifjum upp ákveðinn stað einkennum við hann jafnvel með litum. Sprengisandur, Landmannalaugar, Mývatn. Allt staðir sem við geymum í minningunni, einkenndir af ákveðnum litum.
Sýningin Dalir og hólar – Litur sem haldin er í Dalabyggð og Reykhólasveit byggir í stórum dráttum á þessum hugmyndum um staði og einkenni þeirra í litum. Litur er þar hafður til hliðsjónar enda hafa sýningarstjórar og skipuleggjendur sýningarinnar, þær Sólveig Aðalsteinsdóttir og Þóra Sigurðardóttir, valið af natni listamenn sem rómaðir eru fyrir að horfa til sérstöðu lita og beina sjónum okkar í þá áttina. Alls eru fimm listamenn sem dreifa úr sér á átta stöðum í u.þ.b. 100 km vegalengd sem teygir sig frá Laugum í Sælingsdal til Skarðstöðvar á Skarðströnd og til Reykhóla undir Reykjanesfjalli. Listamennirnir eru Bjarki Bragason, Eygló Harðardóttir, Gerd Tinglum, Logi Bjarnason og Tumi Magnússon.

Ég tel ástæðu að leggja áherslu vegalengdina sem sýningin spannar vegna þess að ferðalagið á milli þessara átta staða er mikilvægur þáttur í upplifun á verkunum og  jafnvel ákveðin sérstaða sýningarinnar ef horft er til umfangsins sem sýningarrými verkanna.
Fyrir listamennina hófst ferðalagið strax með undirbúningi haustið 2013 þegar listamönnunum var boðin þátttaka í sýningunni  Um vorið 2014 ferðuðust fimmmenningarnir svo um sveitina, drukku í sig liti hennar og sögu og út frá því byrjuðu að móta hugmyndir fyrir staðbundin eða rýmisbundin verk, innblásnir af áhrifum umhverfisins. Þessi aðferð skarast inn á braut rannsóknarlistar þar sem einstök fyrirbæri eru skoðuð gegnum myndlist. Listaverkin eru þá afrakstur afmarkaðrar rannsóknarvinnu sem listamaðurinn miðlar í litum og formum.  Í sumum tilfellum liggur heilmikil heimildarvinna að baki verkunum en í öðrum tilfellum eru það hughrif og tilfinning sem leiðir listamanninn á braut sína. Hvort sem er þá standa listaverkin eftir sem staðbundin verk. Þau tilheyra staðnum vegna þess að þau vísa í sögu hans, sérstöðu og einkenni. Þau verða eins og vörður um sveitina þar sem staldra má við, sökkva sér dýpra í einkenni hennar og sögu. Þau beina okkur að leyndardómum staðanna, ekki með því að segja okkur hverjir þeir eru heldur með því að gefa okkur glugga til að horfa gegnum. Þannig horfum við á staðina gegnum listaverkin og á listaverkin gegnum staðina í senn.

Laugar

Í Snælingsdal er Byggðarsafni Dalamanna komið fyrir í kjallara undir heimavist framhaldsskólans að Laugum. Byggðarsafnið geymir minjar og handverk úr fórum sveitunga. Norska listakonan Gerd Tinglum hefur komið fjórum listaverkum fyrir í safninu og blandað þeim innan um muni sem markaðir eru af sögu sveitarinnar. Þetta eru fjögur málverk og fjórar útsaumaðar myndir sem eru sýnd í pörum undir heitinu Um verk. Málverkin eru gerð með litardufti sem listakonan muldi úr jarðefnum sem hún sótti til Ítalíu og bar á strigana. Þau eru sýnd samanbrotin á koffortum og kommóðum. Gerd varpar þannig  ljósi á efnið, á strigann og litarduftið og tekur afstöðu til málverks-sem-hlutar fremur en myndar. Liturinn liggur annarsvegar á yfirborði strigans en hefur líka sokkið inn í strigann og markað hann sem efni. Að því leytinu er verið að sýna okkur „notað málverk“ rétt eins og munirnir í safninu eru „notaðir munir“.

Tinglum keypt útsaumsmyndirnar á mörkuðum. Þær eru saumaðar eftir fyrirmyndum og liggja við hlið málverkanna. Þær eru að sama skapi hlutur, eitthvað sem manni finnst mega taka upp og höndla, brjóta saman eins og hverskyns efnisbút.  Spurningar um menningarverðmæti eru óhjákomalegar þegar maður horfir á þessi verk Gerd Tinglum í samhengi við muni safnsins. Hvernig tíminn mótar verðmætið, tilfinningagildið sem munir gefa okkur og síðast en ekki síst litir þeirra, því ef við hugsum um liti í þessum verkum Gerd í samhengi við tíma þá virka þeir „gamlir litir“.

Staðarhóll

Frá Laugum liggur leið framhjá Miðfjalli sem trónir í fjarska píramídalagað og blágrátt upp úr grasgrænni jörð. Við rætur fjallsins er horft til Gilsfjarðar þar sem himnar spegla sig sjónum svo litir og ljós magnast upp eins og við enda langra ganga. Áfangastaðurinn er Staðarhóll í Saurbæ. Staðarhóll hefur verið í eyði um þó nokkurt skeið. Staðurinn er sögufrægur á Vestfjörðum en þar bjuggu höfðingjar og merkismenn á öldum áður. Má þar nefna Sturla Þórðarson sem m.a. telst einn af höfundum Sturlungu.

Sturla þessi kemur við sögu í ljósmyndaverki Bjarka Bragasonar Myndirnar hanga í þremur mismunandi herbergjum í húsinu. Tvær þeirra eru af auðum síðum, hvítum og „tómum“ ef svo má kalla. Þriðja ljósmyndin sýnir textabrot sem byggir á skálduðu samtali á milli listamannsins, sagnaritarans og staðarins. Hér er glímt við þjóðlega nostalgíu þar sem handrit sagnaritarans er haft til fyrirmyndar, ekki bara sem texti heldur sem brot úr sögu. Tómar blaðsíður eru hin tapaða saga, tapaða handrit og einungis brot úr sögunni er geymt, jafnvel tekið úr samhengi við formála og eftirmála hennar.

Nostalgía í verki Loga Bjarnasonar snýr að bernskunni. Innsetning hans, Töfrar – Draumaherbergi, saman stendur af einföldum og frumstæðum teikningum og málverkum og tilbúnum hlutum, svo sem blöðrum og bolta. Á síðustu öld var rekin verslun á Staðarhóli.  Þar var jafnframt leikfangasala sveitarinnar.  Logi horfir til þeirrar sögu að sama skapi og hann horfir til leiksins í listinni, leitar í sameiginlega töfra leikfangsins og listaverksins. Litríkum myndum og hlutum er vandlega stillt upp í hillum sem áður kunna að hafa geymt ýmiss tól sem uppfylltu drauma barnsins. Listaverkin eru hér komin í hlutverk leikfangsins í hillunni til að draga dreymandi augu til baka, aftur til bernskunnar.

Ytri fagridalur

Skarðströnd liggur meðfram Breiðafirðinum. Í bragga við Ytri Fagradal hafa þau Bjarki Bragason, Logi Bjarnason og Gerd Tinglum sett upp eitt listaverk hvert. Líkt og á Staðarhóli vísar verk Loga til bernskunnar.  Að þessu sinni eru það minningar sem hann túlkar með bláum bjarma innan í rykföllnum Jagúar. Fyrir áhorfandann er ekki um ákveðna minningu að ræða heldur skapar dulrænn blámi fjarlægðarinnar ákveðið andrúm, lokaður í ryki en glittir þó í bjarmann gegnum mattar rúðurnar.

Verk Gerd Tinglum nefnist „Reconciliation“.   Litarflötum er varpað á tjald við endavegg braggans í ákveðnum takti sem listakonan hefur vistað í stafrænni mynd.  Litirnir breytast í samræmi við tóna sem óma í rýminu. Gerd vinnur út frá litakerfi sem hún hefur þróað og tengir það hér við tónkerfi þannig að við mögulega sjáum liti í tónum rétt eins og við heyrum tóna í litum. Við notum jú samskonar skilgreiningar á litum og tónum. Við tölum um litatóna; bjarta tóna og bjarta liti, djúpa tóna og djúpa liti, skæra tóna og skæra liti. Hér tóna því litir umhverfisins í sinni fjölbreyttu mynd fyrir eyru og augu gesta.

Bjarki  gerir tilraun til að upplýsa hvaða menningarsögulega gildi staðurinn hefur umfram annað. Í hvelfdu rýminu glymur upptaka af  upplestri listamannsins úr grein eftir Kristján Eldjárn sem fjallar um merkan fornleifafund í Ytri Fagradal árið 1965, þegar bóndinn á bænum gróf upp minjar er reyndust tilheyra aldargömlum ruslahaug. Bjarki nýtir sér staðinn sem „tilbúið form“, jafnvel litina sem „tilbúna liti“, og gefur honum byr með því að vitna í söguna. Hann notar orð til að magna upp hið sjónræna um leið og hann hleypir okkur á flug um fortíð staðarins.

Skarðstöð

Utar á Skarðströndinni finnum við Skarðshöfn. Þar er flotbryggja fyrir báta sem bændur í sveitinni gera út á sumrin. Þar stendur einnig Skarðstöð, gamalt verslunarhús sem nú liggur í eyði, veggir veðurbarinir og rúður fyrir löngu molnaðar úr körmunum. Umhverfið er heilland. Hafið, fjöllin og himininn skipta með sér sjónsviðinu og vindurinn finnur sér farveg af úthafinu og inn ströndina áður en hann skellur á fjöllunum. Á þetta spilar Eygló Harðardóttir sem nýtir sér kraft vindsins er hann blæs gegnum eyðibýlið og knýr marglita skúlptúr sem festur er á vindmælingarskeið sem listakonan hefur stillt vandlega upp í rýminu miðju. Hér og þar hanga málverk unnin á veggfóðurspappír festan á tau til að venja þau vindinum. Þau snúa frá gluggum svo hægt sé að skoða þau flaksandi utanhúss. Eygló hefur lengi rannsakað eðli lita og litafræði. Og nýtir sér þá þekkingu vel. Jafnframt hefur hún þróað með sér sérlegt næmi fyrir litum í umhverfinu sem hún lætur hafa áhrif á verk sín. Málverkin eru unnin á staðnum og litirnir valdir út frá honum. Láréttir litafletir tættir eins og ljósbrot sem listakonan hefur gripið á Skarðströndinni á ólíkum tímum dags og fangað í efni.

Ólafsdalur

Frá Skarðshöfn liggur leiðin til baka gegn um Saurbæ og inn eftir Gilsfirði.
Í Ólafsdal stendur fönguleg skólabygging er hýsti fyrsta bændaskólann á Íslandi og var starfræktur í dalnum frá árunum 1880-1907. Hér má segja þungamiðju sýningarinnar vera, en á efri hæð byggingarinnar sýna allir fimm listamennirnir í sínu rýminu hver. Listamennirnir hafa lagst yfir rannsóknarvinnu út frá staðnum og lagt metnað í að endurspegla hana í verki.

Eygló Harðardóttir hefur til að mynda leitað í sögu hússins og fundið þar persónu sem hún tileinkar sitt verk.  Sú var kölluð Borga og var ráðskona. Blind var hún í okkar heimi en ku hafa séð ljós annarsstaðar þar sem hún gat horft inn í handanheima. Eygló túlkar ástand Borgu með innsetningu þar sem litir, ljósbrot og svartmálaðar fólíur gefa sýn á þetta misræmi sjónarinnar og gefur sögunni jafnframt abstrakt mynd sem snertir mann skynrænt fremur en rökrænt.

Innsetning Bjarka nefnist Bilið á milli þess sem vísar og vísað er í /hún sagði / leifar af bindingu handrits). Texti eða brot úr bréfi sem hangir á vegg vísar, eins og önnur verk listamannsins, til hugmynda um nostalgíu.  Uppsetning verksins minnir á einhverskonar fornleifasafn, smekkleg og látlaus innsetning þar sem listamaðurinn m.a. raðar saman ljósmyndum af steinabrotum sem hann hefur fengið úr nálægum húsum. Ekki ýkja fjarri fornaleifafundinum í Ytri Fagradal nema hvað hér er um áþreifanlega hluti að ræða.  Út við gluggann eru rústir mjólkurhúss skólans, álíka steinrústir og brotin sem Bjarki hefur ljósmyndað. Hvað litinn varðar horfum við frekar til litleysunnar í þessu tilfelli. Þetta eru grátóna myndir og áferð þeirra er hrjúf.

Logi horfir til fortíðar og spreyjar veggi einnar skólastofu formum sem sýna hvítar þokukenndar útlínur gaddavírsrúllu. Stofan er eins og afgirt draugalegri fortíðinni en litsterkir pappírsbátar grípa hins vegar athygli manns. Þeim er raðað á borð eftir stjörnukerfi sem hefur verið notað til að rata á milli staða þegar siglt er út á haf.  Verkið nefnir hann Vaggað um aldir alda og er bernskan skammt undan í pælingum Loga. Bátarnir eru eins og þeir sem börn læra að gera og tvö málverk, álíka einföld og þau sem hann sýnir að Staðarhóli, beina okkur að öldum hafsins með bláum bylgjulaga formum á fletinum. Hafið kann að vera fagurblátt í myndheimi barnsins en í raunheimi litanna er hafið eins og spegill fortíðar.  Það speglar einungis þann lit sem líður hjá fyrir ofan það.

Til að upplifa málverk Gerd Tinglum Um breytingar þurfa gestir að setjast á skólabekk og fletta bók. Hver síða bókarinnar er máluð með breiðri pensilstroku, tvær umferðir, einn litur yfir annan þannig að litir blandast svo einn litur gefur öðrum sinn undirtón. Á gólfinu eru svo krumpuð blöð í mismunandi litum eins og ófullnægjandi hugmyndir sem einhverir hafa hent frá sér. Sætið og borðið snúa að glugganum svo listakonan vísar okkur á litina utan hússins. Á mosagræna hlíðina með okkur gulum slæðum sem liggja að gráum steinum þöktum þunnum gljáa af lækjarvatni. Á stökum stöðum sýnast hrjúfir klettar niður Stekkjahyrnuna allt að því fjólubláir á lit, mis sterkir eftir birtu himinsins. Allt rímar þetta saman við málverk eða bókverk Gerd.
Í verkinu Role horfir Tumi Magnússon til sögu hússins gegnum lög af málningu sem hafa safnast saman á veggjum eins herbergisins. Listamaðurinn hefur fundið fjóra mismunandi liti sem faldir eru undir grænum veggjunum og endurgerir hann þá í einfaldri mínimalískri innsetningu. Tveir flatskjáir hanga gengt hvorum öðrum á veggjum. Þeir sýna einn lit hvor.
Úr tveimur hátölurum heyrast skruðningar í manni að mála vegg og færast frá einu horni til annars. Við heyrum ískrið í rúllunni, krap í málningarbakkanum og málninguna klínast á vegginn. Loks glittir í málningarrúlluna á skjánum og litur hans tekur að breytast. Listamaðurinn er að sýna upptöku af sjálfum sér mála vegginn í raunstærð. Skjárinn virkar þá eins og rammi sem afmarkar lítinn hluta veggsins og gjörningsins en um leið er hann rammi inn í fortíðina þar sem listamaðurinn fetar sig eftir litum sem áður gáfu rýminu líf. Við opnum augun og sperrum eyrun yfir þessu listaverki.

Krókfjarðarnes
Á Krókfjarðanesi stendur lítil húsaþyrping á hæð ofan við þjóðveginn. Þar var kaupfélagið og bankinn til húsa en nú er þar handverksverslun. Verk Tuma Magnússonar „Traffík 3“ er í litlu afgreiðslu- og skrifstofurými bankans í kaupfélagshúsinu.  Þrjú skjáverk sem sýna flutningabíla aka eftir þjóðveginum. Þetta eru nærmyndir af hliðum bílanna þannig að lítið ber á bakgrunni. Litað lakkið, djúpblátt eða  skærrautt fyllir út í skjáinn og myndskeiðið er klippt þannig að einn bíll birtist strax á eftir öðrum.  Í samræmi við nærumhverfið skapar Tumi einkennilega „trukkastaðarstemmningu“. Andrúmsloftið verður þungt og þreytt.  Myndskeiðið er jafnframt sýnt afturábak og áfram á víxl þannig að hljóðið sem fylgir, þegar flutningabílarnir bruna eftir skjánum, virkar eins og þungur andardráttur í rýminu.

Reykhólar
Verki Eyglóar Harðardóttur á Reykhólum er komið fyrir í sundlauginni á staðnum. Röð málverka hanga á þræði sem er strengdur þvert yfir laugina. Uppsetningin minnir sitthvað á mark, eins og til að keppast við að ná eða leika sér með bolta líkt og í blaki. Að því leytinu nýtist listaverkið sundlaugagestum með öðrum hætti en áhorfi. Málverkin eru smáir einlita fletir á plast og tau sem slæst hvert utan í annað í blásandi vindinum og skapa þannig hljóma.  Eygló notar samskonar litapallettu í Reykhólum og hún gerir í Skarðstöð, og auðvelt er að sjá samhengi við liti í umhverfinu.
Niður við ströndina á Reykhólum er saltverksmiðjan Norðursalt. Þar í einu anddyrinu stendur listaverk Loga Bjarnasonar Aldir um aldir alda, og er jafnframt síðasta listaverkið á þessu ferðalagi um Dali og Hóla. Krossviður beygður í öldulagað form stendur á gólfi og upp að vegg sem snýr að hafinu. Hann er málaður, einlitaður, með bláu bleki sem viðurinn hefur drukkið í sig þannig að gárur í viðnum verða sýnilegar undir litnum og skapa þannig öldumyndir.
Öldurnar virka eins og mantra sem endurtekur sig aftur og aftur enda er það eðli sjávarbylgja, ólíkt rafsegulbylgja, að efnið leitar alltaf til sinnar upprunalegrar stöðu. Rafsegulbylgjur sem bera okkur litina lúta ekki sömu lögmálum um efni.  Þær flytja með sér orku sem þarf ekki efni til að berast áfram.  Þær eru ljós.  Engu að síður getum við sökkt okkur inn í þetta ljós og drukkið það í okkur með augunum frá skala sem við köllum rauðan, gulan og bláan og alla liti sem birtast þar á milli. Þannig er mantra litanna, og í þessu tilfelli er það mantra „íslenskra lita“ sem er í fyrirrúmi, litanna sem eru á Dölum og Hólum, frá Laugum til Skarðs og til Reykhóla.